Innlent

Jón Gnarr fagnar komu Gaga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Gnarr borgarstjóri mun afhenda verðlaunin með Yoko Ono.
Jón Gnarr borgarstjóri mun afhenda verðlaunin með Yoko Ono.
Jón Gnarr borgarstjóri fagnar því að Lady Gaga skuli fá LennonOno friðarverðlaunin. Eins og Vísir greindi frá í morgun mun Gaga koma til landsins í næstu viku til að taka á móti þeim. Jón segir að verðlaunin veki töluverða athygli í ákveðnum hóp fólks sem lætur sig varða friðar- og mannréttindamál í heiminum. „Og það þykir ákveðinn heiður að hljóta þessi verðlaun," segir Jón Gnarr.

Hann segir að auk Lady Gaga muni móðir Rachel Corrie heitinnar, sem tók sér stöðu fyrir framan skriðdreka í Palestínu, koma til landsins auk eiginmanns einnar af þremenningunum úr Pussy Riot. Þá mun ekkja rithöfundarins og blaðamannsins Christopher Hitchens líka koma. „Þetta er rosalega flott frumkvæði og framtak hjá gömlu konunni að gera þetta," segir Jón um verðlaunin sem Yoko Ono setti á laggirnar til minningar um eiginmann sinn, John Lennon. Verðlaunin eru einmitt afhent á afmælisdag Lennons.

Jón mun afhenda verðlaunin með Ono. „Ég tek þátt í því og tók þátt í því fyrir tveimur árum líka," segir hann. Hann segir að þetta hafi verið mjög hátíðleg stund í hitteðfyrra. „Þetta er mjög hátíðleg stund og falleg stund. Fólk tekur þessu mjög persónulega," segir Jón. „Svo er líka alveg frábært að þetta skuli fara fram í Reykjavík og við tengjumst þessu. Það er alveg frábært að taka þátt í einhverju svona metnaðarfullu og fallegu," segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×