Innlent

Vilja að stjórn Eirar segi af sér

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er formaður stjórnar Eir.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er formaður stjórnar Eir.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ krefst þess að stjórn Eirar axli ábyrgð á greiðsluþroti stofnunarinnar með því að víkja. Eir skuldar átta milljarða, þar af eiga heimilismenn tvo milljarða sem þeir hafa lagt inn sem búsetutryggingu. Þeir fjármunir kunna að glatast að mati hreyfingarinnar en einn úr hreyfingunni, Þórður Björn Sigurðsson, er varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, sem er eitt af sveitarfélögunum sem kemur að rekstri hjúkrunarheimilisins.

Svo segir í tilkynningu íbúahreyfingarinnar:

„Í fjölmiðlum hefur komið fram að í stað þess að stöðva byggingaframkvæmdir í kjölfar hrunsins hafi stjórnendur Eirar tekið ákvörðun um að halda áfram með byggingu nýrra íbúða. Sú ákvörðun reyndist afdrifarík. Til að fjármagna framkvæmdirnar voru peningar íbúðarétthafa notaðir. Stjórnendur hafi þannig notað peninga frá heimilismönnum sem ódýr lán í stað þess að reyna að ávaxta féð.

Treyst var á að þensla á fasteignamarkaði héldi áfram en þegar markaðurinn lamaðist syrti í álinn. Þá er formaður stjórnar Eirar sagður hafa vitað strax árið 2011 að stofnunin væri á leið í greiðsluþrot. Engu að síður hafi verið haldið áfram að gera samninga við nýja íbúa. Slíkt er merki um alvarlegan dómgreindarbrest. Rétt væri að vísa málinu til lögreglu.

Ljóst er að trúverðugleiki Eirar hefur beðið hnekki. Traust milli heimilismanna, aðstandenda þeirra og stjórnar Eirar er brostið. Til að Eir megi öðlast nauðsynlegan trúverðugleika er afsögn sitjandi stjórnar óhjákvæmilegt fyrsta skref."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×