Innlent

Hver undanþágulyfseðill tekur hálftíma

Geðlæknar eru margir hverjir uggandi yfir því að ekkert samheitalyf sé komið á lyfjamarkað í stað Trilafon, sem hefur reynst hundruðum geðklofasjúklinga vel.
Geðlæknar eru margir hverjir uggandi yfir því að ekkert samheitalyf sé komið á lyfjamarkað í stað Trilafon, sem hefur reynst hundruðum geðklofasjúklinga vel. Fréttablaðið/Anton
Læknar þurfa að fylla út sérstök eyðublöð í þríriti til viðbótar við umsókn um lyfjaskírteini til að ávísa sjúklingum sínum lyf sem eru á undanþágulista Lyfjastofnunar.

Hvorki er hægt að útvega seðilinn rafrænt né símleiðis og má áætla að hver seðill taki í kringum hálftíma að útbúa, samkvæmt Gylfa Óskarssyni, sérfræðingi í barnalækningum hjá Barnaspítala Hringsins.

Gylfi skrifar leiðara í síðasta tölublað Læknablaðsins, þar sem hann skorar á heilbrigðisyfirvöld að hefja endurskoðun og einföldun á regluverki um lyfjaávísanir og skráningu lyfja í samvinnu við samtök lækna. Núverandi ástand sé ekki boðlegt.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í gær að gamalt og vinsælt geðklofalyf, Trilafon, er hætt í framleiðslu og verður tekið af markaði hér á landi í byrjun næsta árs.

Engin samheitalyf koma á markað í staðinn, en læknar geta útvegað sjúklingum sínum undanþágulyfseðil fyrir öðru lyfi sem sagt er hafa svipaða virkni.

„Sýnu alvarlegast er þó þegar bráðnauðsynleg lyf hverfa algerlega af markaði eða eru ófáanleg í landinu um lengri eða skemmri tíma. Nýleg alvarleg dæmi um slíkt vekja spurningar um ábyrgð yfirvalda og lyfjafyrirtækja og möguleika hinna fyrrnefndu til að beita lyfjafyrirtæki viðurlögum þegar skortur á mikið notuðu lyfi getur ógnað öryggi sjúklinga,“ segir Gylfi í grein sinni. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×