Körfubolti

LeBron James tók sér bara 9 daga sumarfrí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það var nóg að gera hjá besta körfuboltamanni heims í sumar. LeBron James vann sinn fyrsta NBA-meistaratitil í júní og bætti síðan við Ólympíugulli í London í ágúst. Í millitíðinni eyddi hann tímanum í að bæta sinn leik sem og að sinna skyldum út um allan heim.

LeBron James og félagar í Miami Heat byrja titilvörnina í kvöld þegar þeir fá erkifjendurna í Boston Celtics í heimsókn til Miami. James hefur ekki fengið mikinn tíma til að hvíla sig eftir sögulegt tímabil í fyrra.

James tók sér aðeins níu daga sumarfrí og auk þess að æfa og spila með bandaríska Ólympíuliðinu þá var á ferðinni út um allt í að þjónusta bæði aðdáendur og styrktaraðila en það er nóg af báðum.

LeBron James vitnaði í fræg ummæli Larry Bird og Magic Johnson þegar hann útskýrði af hverju hann vildi ekki taka sér mikið frí frá körfuboltanum.

James talaði um að hann yrði strax óþreyjufullur því hann vissi alltaf að það væri einhver annar, í annarri borg og öðru liði sem væri að æfa meira á sama tíma.

LeBron James var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar og besti leikmaður úrslitakeppninnar á síðasta tímabili. Hann var með 27,1 stig, 7,9 fráköst og 6,2 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni en í úrslitakeppninni skoraði hann 30,3 stig í leik, tók 9,7 fráköst og gaf 5,6 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×