Innlent

Burðardýrið frá Lettlandi og ekki vitað hver skipulagði smyglið

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Pakki með 700 grömmum af kókaíni hafði verið saumaður undir hárkollu sem hafði verið fest við náttúrulegt hár konunnar. Myndin er úr myndasafni og tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Pakki með 700 grömmum af kókaíni hafði verið saumaður undir hárkollu sem hafði verið fest við náttúrulegt hár konunnar. Myndin er úr myndasafni og tengist ekki efni fréttarinnar beint.
Pakki sem innihélt um 700 grömm af kókaíni fannst undir hárkollu sem saumuð hafði verið rækilega við hár rúmlega fertugrar lettneskrar konu sem kom með flugi til Íslands frá Spáni. Hún situr nú í gæsluvarðhaldi. Talið er að efnið hafi verið ætlað til sölu hér á landi og að konan sé burðardýr.

Konan sem er frá Lettlandi kom til landsins með flugi frá Alicante á Spáni hinn 2. ágúst síðastliðinn en talið er að hún sér burðardýr fyrir einstaklinga sem vildu koma efninu í dreifingu og sölu hér á landi.

Pakkinn með kókaíninu hafði verið rækilega falinn og saumaður undir hárkollu sem konan bar.

Konan, sem er rúmlega fertug, hefur einu sinni áður komið til landsins en ekki áður komið við sögu hjá lögreglu. Hún hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 23. ágúst næstkomandi.

Ekki liggur fyrir hver skipulagði smyglið, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu er margt sem bendir til þess að konan sjálf, sem þáði greiðslu fyrir, viti ekki hver skipulagði smyglið. Þannig að ekki liggur fyrir hvort höfuðpaurarnir séu Íslendingar, Spánverjar, Lettar eða eitthvað annað.

Málið kom upp við hefðbundið eftirlit hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli, en háttalag konunnar og hár hennar vöktu grunsemdir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum telst rannsókn málsins vel á veg komin og að mestu upplýst.

Styrkleiki kókaínsins liggur ekki fyrir, en lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands er nú með efnið í greiningu.

Konan gæti átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi verði hún ákærð og fundin sek, miðað við sakfellingar í sambærilegum málum. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×