Íslenski boltinn

Lærisveinar Guðjóns Þórðarsonar í Grindavík unnu 4-1 sigur á ÍA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Mynd/Daníel
Íslenskir fótboltamenn eru aftur komnir á ferðina og farnir að undirbúa sig fyrir komandi tímabil. Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindavíkur, fór með sína stráka í Akraneshöllina um helgina og vann Grindavíik 4-1 sigur á ÍA í æfingaleik.

ÍA verður nýliði í Pepsi-deildinni í sumar en Guðjón hefur tekið við Grindavíkurliðinu sem rétt bjargaði sér frá falli úr úrvalsdeildinni síðasta haust.

Þetta kemur fram á heimasíðu Skagamanna en það var markalaust í fyrri hálfleik í leiknum. Grindvíkingar skoruðu síðan fjögur fyrstu mörk leiksins áður en heimamenn náðu að minnka muninn í lokin.

Pape Mamadou Faye, nýr leikmaður Grindavíkur, skoraði tvö mörk í leiknum en hann skoraði einmitt fernu á móti Skagamönnum í lokaumferð 1. deildarinnar í sumar þegar Pape lék með Leikni.

Matthías Örn Friðriksson og Magnús Björgvinsson skoruðu hin mörk Grindavíkur en Andri Geir Júlíusson skoraði mark ÍA.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×