Körfubolti

Logi stigahæstur í óvæntum sigri á meisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Logi Gunnarsson var góður í kvöld.
Logi Gunnarsson var góður í kvöld.
Logi Gunnarsson skoraði 21 stig þegar lið hans, Solna Vikings, gerði sér lítið fyrir skellti Svíþjóðarmeisturum Sundsvall Dragons í miklum Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Loktatölur voru 87-81 fyrir Solna en leikurinn fór fram í Sundsvall.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði 20 stig fyrir Sundsvall og var stighæstur hjá heimamönnum. Hlynur Bæringsson skoraði tíu stig og tók tíu fráköst en Pavel Ermolinskij spilaði ekki í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum í kvöld, sérstaklega í seinni hálfleik. Solna skoraði þó fimm stig í röð snemma í fjórða leikhluta og lét forystuna aldrei af hendi eftir það.

Brynjar Þór björnsson skoraði nítján stig í öruggum sigri sinna manna í Jämtland gegn Örebro, 94-71. Brynjar Þór hitti úr fimm af tíu þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum.

Sundsvall tapaði topppsæti deildarinar í kvöld en er nú í öðru sæti. Solna er í sjöunda sætinu en Jämtland áttunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×