Viðskipti innlent

Þúsund ómenntaðir karlmenn hverfa úr opinberum gögnum

Svo virðist sem um 1.000 ómenntaðir karlmenn á aldrinum 16 til 49 ára hafi horfið úr opinberum tölum um vinnumarkaðinn.

Þessi hópur karlmanna er aðeins með grunnskólapróf og vann að mestu við mannvirkjagerð hér á árum áður. Greining Arion banka fjallar um málið í Markaðspunktum sínum og leitar svars við spurningunni um hvað varð um þessa karlmenn. Svörin liggja hinsvegar ekki á lausu.

Hvorki nýjustu tölur frá Vinnumálastofnun né regluleg skýrsla Hagstofunnar um vinnumarkaðinn á síðasta ársfjórðungi skýra hvernig um 1.000 karlmenn á þessum aldri eru skyndilega horfnir úr gögnum beggja þessara stofnanna. Tölur um brottflutta einstaklinga umfram aðflutta virðast þó sýna að þessi hópur hafi í einhverjum mæli leitað tækifæra erlendis.

Einnig er hugsanlegt að þessir karlmenn hafi verið svo lengi á atvinnuleysisskrá að þeir fái ekki lengur bætur heldur séu komnir á framfæri félagsmálayfirvalda í borginni eða í viðkomandi sveitarfélögum. Sú skýring gengur þó ekki upp því á síðasta ári bættust aðeins 280 einstaklingar í heild á framfæri borgarinnar vegna þess að þeir misstu atvinnuleysisbætur sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×