Viðskipti innlent

Gunnar Andersen rekinn

Gunnar Andersen.
Gunnar Andersen.
Gunnari Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), hefur verið sagt upp störfum. Aðalsteinn Leifsson, stjórnarformaður FME, tilkynnti Gunnari um ákvörðun stjórnar FME þess efnis, samkvæmt heimildum fréttastofu. Ákvörðunin var tekin eftir að Ástráður Haraldsson hrl. og Ásbjörn Björnsson endurskoðandi höfðu skilað skýrslu til stjórnar FME um aðkomu Gunnars að aflandsfélögum, þegar hann starfaði hjá Landsbankanum, og hæfi hans til þess að gegna starfi forstjóra.

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Gunnari eða Aðalsteini.

Andri Árnason hrl. hafði í tvígang verið fenginn til þess að meta hæfi Gunnars, eftir að upplýsingar komu fram, m.a. í Kastljósi RÚV, þess efnis að hann hefði komið að starfsemi aflandsfélaga Landsbankans á þeim tíma er hann starfaði þar, sem var á árunum 1991 til 2003. Ástráður og Ásbjörn voru síðan fengnir til þess að fara yfir síðara mat Andra, og draga fram nýjar upplýsingar eftir því sem þörf var á.

Gunnar var ráðinn forstjóri FME 3. apríl 2009 og var þá valinn úr hópi 19 umsækjenda.

Frekari upplýsingar um málið koma hér inn á Vísi eftir því sem upplýsingar um málið berast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×