Viðskipti innlent

Íslenskur saltfiskur lækkar í verði vegna kreppu í Suður-Evrópu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stórþorskur hefur lækkað í verði á mörkuðum hérlendis.
Stórþorskur hefur lækkað í verði á mörkuðum hérlendis.
Verð á saltfiski hefur lækkað um allt að tuttugu prósent í einstökum tegundum vegna skuldakreppunnar í ríkjum Suður-Evrópu. Þetta á jafnframt þátt í fjórðungs verðlækkun á stórþorski á fiskmörkuðum hérlendis á undanförnum vikum.

Helstu kaupendur íslensks saltfisks eru Portúgal, Spánn, Grikkland og Ítalía en áætla má að Íslendingar hafi selt saltfisk fyrir um þrjátíu milljarða króna á síðasta ári og er þetta því ein þýðingarmesta útflutningsgrein þjóðarinnar. Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Nesfisks í Garði, segir verðin hafa lækkað talsvert mikið, - þó sé eins og salan sé örlítið aftur að aukast eftir að verðin lækkuðu.

Saltfiskframleiðendur segja verðlækkuna misjafna eftir tegundum, en hún sé mest í stærsta flatta saltfiskinum. Bergþór nefnir 20% verðlækkun frá því í haust.

Neytendur í Suður-Evrópu hafa sparað við sig ferðir á veitingastaði sem kaupa stærsta og dýrasta saltfiskinn og hefur þetta átt þátt í því að stórþorskur hefur lækkað í verði um fjórðung á mörkuðum hérlendis.

Þá hafa erlendir kaupendur lent í vandræðum með lánafyrirgreiðslu og dregið greiðslur. Bergþór segir hefðbundinn greiðslufrest hafa lengst og algengt sé að hann hafi teygst úr 30 dögum og upp í 65 daga og menn vilji jafnvel teygja þetta ennþá lengra. Það hafi einnig áhrif.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×