Innlent

"Forsetinn á ekki að tala í gátum"

Það er ókurteisi af hálfu forsetans að gefa það ekki afdráttarlaust upp hvort hann ætli að sækjast eftir endurkjöri. Forsetinn eigi ekki að tala í gátum segir þingmaður Samfylkingarinnar.

Ólafur Ragnar Grímsson gaf það í skyn í nýársávarp sínu að hann ætli sér ekki að sækjast eftir endurkjöri þegar hann lýkur sínu fjórða kjörtímabili í sumar. Mörgum þótti sem að forsetinn hefði þó ekki útilokað það og hefur fjöldi fólks skorað á hann að gefa áfram kost á sér. Þá sýnir nýleg könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins að rétt rúmur helmingur þjóðarinnar vill að hann sækist eftir endurkjöri.

Á þeim eina og hálfa mánuði sem að liðinn er frá nýársávarpi forsetans hefur fréttastofa ítrekað reynt að fá við hann viðtal og fá hann til að svara því hvort að til greina komi að hann bjóði sig fram aftur. Hann hefur þó ekki orðið við þeim óskum.

„Það er náttúrulega bara ókurteisi að vera ekki búinn að skýra það á einum og hálfum mánuði hvað hann átti við í sínu nýársávarpi. Fólk er búið að vera velta þessu fyrir sér síðan þá. Auðvitað á forseti sem er í tengslum við sína þjóð að útskýra strax ef það er einhver vafi leikur á hvað hann átti við," sagði Róbert Marshall, varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Þá segir Róbert aðra frambjóðendur mögulega farna að setja sig í stellingar.

„Það skiptir auðvitað máli hvort að þeir eru að fara að etja kappi við sitjandi forseta eða ekki. Þar að auki ætlum við mögulega að fara með tillögur stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða þessum kosningum," sagði Róbert.

En Ólafur gefur áfram kost á sér þá er óvíst hvaða áhrif það hefur og hvort að kosningar verði. Róbert segir mikilvægt að Ólafur gefi það afdráttarlaust út hvort að hann ætli að sækjast eftir endurkjöri.

„Það er heppilegra fyrir alla að hann útskýri hvað hann átti við. Forseti þjóðarinnar á ekki að tala í gátum," sagði Róbert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×