Innlent

Ökufantur á flótta fær tæplega sjö milljónir úr tryggingunum

Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Hæstiréttur lækkaði bætur manns lítillega sem slasaðist alvarlega þegar hann féll af vélhjóli sínu þar sem lögreglan veitti honum eftirför. Það var Héraðsdómur Reykjavíkur sem dæmdi tryggingafélagið Vörð til þess að greiða manninum 7,3 milljónir króna út af slysinu og þurfti hann því að bera helminginn af skaðanum, en upphaflega áttu bæturnar að vera rúmar 14 milljónir króna.

Maðurinn féll af hjóli sínu sumarið 2007 þegar hann ók langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Lögreglan veitti manninum og félaga hans eftirför 30 kílómetra leið. Þar af voru mennirnir á ofsahraða 20 kílómetra vegkafla. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að mennirnir hafi ekið hjólum sínum frá Kambabrún í átt til Reykjavíkur um Suðurlandsveg.

Þannig taldi Magnús Þór Jónsson prófessor, sem vann hraðaútreikninga fyrir lögreglu, að ætlaður meðalhraði bifhjólanna frá radarmælingum frá Kambabrún að Breiðholtsbraut hafi verið 187 kílómetrar á klukkustund. Á stærstum hluta leiðarinnar, þ.e. frá Kambabrún að Hólmsá hafi meðalhraðinn verið 196 kílómetrar á klukkustund. Á akstri sínum hunsuðu mennirnir ítrekað stöðvunarmerki og vegartálma lögreglu.

Viðurkennt er að maðurinn hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. En vegna þess að maðurinn var ekki undir áhrifum fíkniefna eða áfengis, þá er tryggingafélaginu engu að síður skylt að greiða manninum hluta af bótunum.

Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur en lækkar kröfuna um rúma hálfa milljón. Ástæðan er sú að gagnáfrýjandi lækkaði kröfu sína fyrir Hæstarétti vegna leiðréttingar á útreikningi hennar.

Maðurinn fær því 6,6 milljónir í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×