Fótbolti

Manchester United í góðum málum | Vann Ajax 2-0 í Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United er komið með annan fótinn í 16 liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir 2-0 útisigur á hollenska liðinu Ajax í fyrri leik liðanna í 32 liða úrslitum keppninnar. Bæði mörk United-liðsins komu í seinni hálfleiknum.

Það gerðist ekki mikið í fyrri hálfleiknum en United kom sér í frábæra stöðu með því að skora tvö eftir hlé. Ashley Young skoraði fyrra markið og Javier Hernández það síðara.

Ashley Young skoraði markið sitt á 60. mínútu með skoti utan úr teig eftir fyrirgjöf frá Portúgalanum Nani. Ashley Young skoraði þarna sitt fyrsta mark fyrir United eftir að hann snéri til baka eftir meiðslin sem héldu honum lengi frá keppni.

Javier Hernández bætti við öðru marki fimm mínútum fyrir leikslok eftir að hafa fengið óeigingjarna sendingu frá Wayne Rooney. Mexíkómaðurinn var þarna að skora í sínum þriðja leik í röð en hann skoraði einnig á móti Stoke City og Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×