Innlent

Vilja auka samstarf skóla og Húsdýragarðsins

Stefnt er að því að auka samstarf skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og styrkja þannig fræðsluhlutverk garðsins.

Á fundi skóla- og frístundaráðs 15. febrúar var samþykkt að skipa starfshóp til að greina hvernig nýta megi garðinn og umhverfi hans til fræðslustarfs með börnum og unglingum, s.s. í líffræði og undirgreinum hennar. Í greinargerð með tillögu Samfylkingar og Besta flokks segir að á fundum starfsmanna Fjölskyldu - og húsdýragarðsins, kennara og skólastjórnenda á liðnu hausti hafi það verið sameiginleg sýn að nýta mætti garðinn enn betur til að flétta saman skólastarf og markmið aðalnámskrár, s.s. markmið um sjálfbærni til menntunar.

Sérhæfing garðsins og þarfir skólanna mætist ekki einungis til að efla fræðslu um líffræði og umhverfismál, heldur einnig um raunvísindi almennt því í vísindaveröld garðsins megi nýta mannauð og sérþekkingu betur til fræðslustarfs.

Starfshópurinn mun skoða hvernig Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn geti betur notið þeirrar sérfræðiþekkingar sem skóla- og frístundasvið getur boðið upp á, s.s. í formi námsefnisgerðar og aðkomu kennara að fræðslu í garðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×