Innlent

Brúarfoss hársbreidd frá strandi við Reykjanes

Flutningaskipið Brúarfoss, með ellefu manna íslenska áhöfn,var hætt komið við Reykjanes í nótt þegar bilun varð í vélbúnaði og skipið rak að landi í vestan hvassviðri og sjö metra ölduhæð.

Starfsmenn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og vaktstöðvar siglinga tóku eftir því um þrjú leitið í nótt, að skipið var komið á rek í átt til lands á Garðskaga og kom þá í ljós hvers kyns var.

Togarinn Höfrungur þriðji , sem var staddur skammt undan, var beðinn að halda þegar á vettvang og varðskipið Ægir , sem var suður af Grindavík, hélt á fullri ferð í átt að skipinu, auk þess sem þyrla Gæslunnar var send til Sandgerðis og sett þar í viðbragðsstöðu.

Björgunarsveitir Landsbjargar á svæðinu voru kallaðar út og lögregla upplýst um málið. Þegar togarinn var kominn að skipinu og skipverjar beggja skipanna voru að undirbúa að koma dráttartaug á milli þeirra, tókst vélstjórunum í Brúarfossi að koma vélinni aftur í gang, en þá átti skipið aðeins eina sjómílu ófarna upp í grynningar við land.

Skipinu var þegar beint frá landi og fylgir varðskip því nú áleiðis til Vestmannaeyja, þar sem vélbúnaðurinn verður yfirfarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×