Innlent

Álver á Bakka aftur til skoðunar

Álver á Bakka er aftur komið til skoðunar og hefur Landsvirkjun hafið viðræður við svissneskt fyrirtæki sem vill reisa 180 þúsund tonna álver við Húsavík. Ráðamenn fyrirtækisins flugu til Norðurlands í gær á einkaþotu til að skoða aðstæður.

Einkaþotan sem lenti á Akureyrarflugvelli um miðjan desember þótti til marks um áhuga þýskra aðila á að reisa kísilver við Húsavík.

Einkaþotan sem lenti á Akureyri í gær, var hins vegar ennþá stærri og þegar menn sáu einkennisstafi þotunnar höfðu menn á orði að sjálfur Mister Bigg væri mættur. Um borð var Gary Klesch, aðaleigandi og stjórnarformaður svissnesks fyrirtækis sem veltir 600 milljörðum króna og rekur meðal annars þrjú álver, tvö í Hollandi og eitt í Þýskalandi.

Klesch kom til Íslands ásamt einum forstjóra sinna til að kanna möguleika á að reisa 180 þúsund tonna álver, og ræddu þeir á mánudag meðal annars við fulltrúa Landsvirkjunar, Landsnets og Skipulagsstofnunar, sem og við tvo ráðherra, og í gær funduðu þeir með ráðamönnum á Húsavík.

Athyglisvert er að þeim skuli nú vísað á lóðina á Bakka, aðeins fjórum mánuðum eftir að slitið var viðræðum um að Alcoa reisti þar álver.

Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 er stutt síðan Klesch hóf könnunarviðræður við Landsvirkjun um kaup á 200 megavöttum raforku og var niðurstaða Íslandsheimsóknar hans nú að þeim viðræðum skyldi haldið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×