Innlent

DV: Ásakanir Bjarna alvarlegar

Feðgarnir Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason ritstýra DV.
Feðgarnir Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason ritstýra DV.
Ritstjórar DV segir að ásakanir Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að blaðið væri að ganga erinda Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, séu alvarlegar og vega að trúverðugleika blaðsins. DV hefur fjallað ítarlega um aðkomu Bjarna að lánveitingum Milestone og Glitnis, auk sölu hans á hlutabréfum í Glitni árið 2008. Blaðið segir að umfjöllunin byggi á fjölda staðreynda og gagna.

Yfirlýsingu DV má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Rangar ásakanir gegn DV

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ásakaði ritstjórn DV um að ganga erinda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi og í yfirlýsingu til fjölmiðla á mánudag. Ásakanirnar eru alvarlegar og vega að trúverðugleika DV sem hlutlauss fjölmiðils.

Bjarni hefur engar sannanir fært á ítrekaðar ásakanir sínar. Aðdragandi ásakananna er að DV hefur fjallað um aðkomu Bjarna að viðskiptafléttu Milestone og Glitnis, auk sölu hans á hlutabréfum í Glitni í febrúar 2008. Umfjöllunin byggir á fjölda staðreynda og gagna, ólíkt órökstuddum ásökunum Bjarna. Afar óábyrgt er af formanni stærsta stjórnmálaflokks landsins að færa ítrekað fram rangar og rakalausar ásakanir í fjölmiðlum.

Ritstjórn DV lítur á það sem skyldu sína að upplýsa almenning. Í ritstjórnarstefnu DV er skýrt kveðið á um að „fjölmiðillinn DV og fréttamenn hans vinna ekki út frá hagsmunum stjórnmálaflokka". Ásakanir Bjarna vega að grunngildum fjölmiðilsins.

Ekki er sjálfsagt að leynd sé yfir aðkomu stjórnmálamanna að viðskiptafléttu, sem kostaði almenning milljarða króna og er að hluta til fyrir dómstólum vegna meintra efnahagsbrota, hvort sem grunur leikur á um lögbrot stjórnmálamannsins eða ekki.

Óskandi er að stjórnmálamenn hafi lært af efnahagshruninu að skjóta ekki sendiboðann.

Í Rannsóknarskýrslu Alþingis um efnahagshrunið er komist að þeirri niðurstöðu að íslenskir fjölmiðlar hafi verið of værukærir í umfjöllunum sínum. Hagsmunir samfélagsins í heild fara ekki alltaf saman við hagsmuni einstakra stjórnmálamanna. Gagnsæi og öflug rannsóknarblaðamennska er hluti af þeim grunni sem öflugt lýðræðisríki verður að standa á.

Fyrir hönd DV.

Jón Trausti Reynisson ritstjóri

Reynir Traustason ritstjóri




Fleiri fréttir

Sjá meira


×