Innlent

Vilja hækka stöðumælagjaldið

Mynd/Haraldur
Til stendur að hækka stöðumælagjaldið í miðborg Reykjavíkur og lengja gjaldskyldan tíma. Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær að beina þessum tillögum til borgarráðs.

Nái tillögurnar fram að ganga hækkar klukkutíma gjald fyrir bílastæði á götum úr 150 krónum í 250 krónur. „Gjaldskyldur tími verður frá kl. 9 - 18 á virkum dögum og frá kl. 9 - 16 á laugardögum. Ráðið leggur til að gjald í bílastæðahúsum verði óbreytt en þar kostar fyrsti klukkutíminn 80 kr. en næstu tímar 50 kr. Staðfesta þarf tillögur ráðsins í borgarráði en áformað er að breytt gjaldtaka hefjist 15. apríl nk.," segir í tilkynningu frá borginni.

Þá er vitnað til rannsókna sem gerðar hafa verið á bílastæða í miðborgum erlendis sem sagðar eru sýna ótvírætt að bílastæðin eru lengur upptekin ef gjaldið er lágt. „Því er hærra gjaldi beitt til að auka gegnumflæði bifreiða um afmörkuð bílastæði. Verðhækkun ætti því að tryggja meira framboð af stæðum í miðborg Reykjavíkur sem er til mikilla hagsbóta fyrir viðskiptavini, kaupmenn og aðra rekstraraðila."

„Í nágrannaborgum á borð við Kaupmannahöfn, Osló og Helsinki er margfalt dýrara að leggja bíl miðborginni og gjaldskyldur tími er lengri. Sem dæmi kostar klukkutími á gjaldsvæði í miðborg Kaupmannahafnar 619 kr, í Ósló 677 kr. og í Helsinki 639 kr."

Í tilkynningunni er bent á að bílastæðagjald í Reykjavík hafi staðið óbreytt síðan árið 2000 eða í rúm 10 ár. Árið 2000 var klukkutímagjaldið jafnhátt einstöku strætófargjaldi fyrir fullorðinn sem er nú 350 krónur.

„Nýting bílastæða á götum á gjaldsvæði 1 í Reykjavík er frá 90 - 95%. Næg bílastæði eru hins vegar í miðborginni og í næsta nágrenni við hana. Þá hafa bílastæðahús verið vannýtt en þau eru ódýr og góður kostur. Þar eru 1.140 bílastæði. Hálfur dagur í bílastæðahúsum Bílastæðasjóðs kostar 230 krónur. Í Kaupmannahöfn kostar hálfur dagur aftur á móti 2.319 kr.. Bílastæðagjöld í Reykjavík verða því áfram þau ódýrustu miðað við nágrannalönd."

Bílastæðahús í miðborg Reykjavíkur eru við Laugaveg, Vitastíg, Bergstaðastræti, Hverfisgötu og Kalkofnsveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×