Innlent

Sakar ríkissaksóknara um að hvítþvo lögreglu

Hæstaréttarlögmaður sakar ríkissaksóknara um að hvítþvo lögreglu ítrekað og fella niður mál um meint brot hennar í starfi. Öfugt við ríkissaksóknara, komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu í dag að lögregla hefði brotið lög þegar hún hleypti myndatökumanni Kastljóss inn á einkaheimili við húsleit. Húsráðendum voru dæmdar skaðabætur.

Myndatökumaður Kastljóss fór í fylgd lögreglu í húsleit í úthverfi Kópavogs í mars 2009 vegna gruns um fíkniefnabrot húsráðenda. Lögreglu er ekki heimilt, samkvæmt eigin verklagsreglum, að hleypa fjölmiðlum inn á einkaheimili til myndatöku - nema með samþykki húsráðenda. Það var ekki veitt enda húsráðendur á ferðalagi á leið til Íslands þegar húsleitin fór fram. Myndefnið var aldrei birt en Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag að starfsmenn lögreglu hefðu með þessu brotið eigin reglur - og brotið þagnarskylduákvæði lögreglulaga. Lögmaður fólksins fagnar dómnum - en er ósáttur við ríkissaksóknara.

„Það sem er athyglisvert við þetta er að ríkissaksóknari hafði haft sakamálahluta þessa sama máls til meðferðar en ríkissaksóknari ákvað venju samkvæmt að hvítþvo lögregluna í þessu sambandi og hætti rannsókn málsins," sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður.

Vilhjálmur vísar þarna til þess að ríkissaksóknari felldi niður rannsókn á sama máli.

„Á grundvelli þess að lögreglan hafi verið í lögvillu og hins vegar að lögreglan hafi ekki brotið gegn þagnarskyldu ákvæðum."

Vilhjálmur telur að ríkissaksóknari sé vanhæfur til að fjalla um meint brot lögreglu í starfi - ekki sé einleikið hversu oft slík mál falli niður í höndum hans.

„Ég skora á löggjafann að taka á þessu vandamáli."

Ríkissaksóknari vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu, þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×