Innlent

Dýrast að synda í Kópavogi og í Árborg

Dýrast er að fara í sund í Kópavogi og í Árborg en ódýrast í Reykjanesbæ, það er að segja ef greitt er stakt gjald fyrir fullorðinn. Í fyrrnefndu bæjarfélögunum kostar 550 krónur að dýfa sér í laugina en í Reykjanesbæ kosntar það 370 krónur. Þarna munar tæpum 50 prósentum en þetta kemur fram í nýrri könnun verðlagseftirlits ASÍ sem kannaði verð og breytingar á gjaldskrám sundstaða hjá fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins.

„Sveitarfélögin sem skoðuð voru hafa hækkað gjaldið á stökum miða í sund fyrir fullorðna um 4-23%. Árskort fullorðinna hefur hækkað hjá 11 sveitarfélögum af 15 um 3-23%. Aðeins Reykjavík, Reykjanes, Árborg og Seltjarnarnes hafa ekki hækkað árskortið hjá sér. Hjá 10 sveitafélögum af 15 er greitt fyrir börn á grunnskólaaldri í sund."

„Öll sveitarfélögin hafa hækkað hjá sér gjaldskrána á stakri sundferð milli ára. Mesta hækkunin er í Hafnarfirði um 32% eða úr 340 kr. í 450 kr. Minnsta hækkunin er á Akureyri 4%. Þar fer gjaldið úr 450 kr. í 470 kr. og á Ísafirði um 4% eða úr 490 kr. í 510 kr."

ASÍ segir að til að spara sé mikilvægt að vera vel skipulagður og hugsa fram í tímann og kaupa afsláttarkort en í boði eru 10, 20, 30 miða kort, mánaðarkort, 6 mánaðakort og árskort. „Það er allt að 69% verðmunur á hæsta og lægsta verði fyrir 10 miða kort sem selt er hjá öllum sveitarfélögunum nema Akranesi. Hæsta gjaldið fyrir 10 miða kort er 4.400 kr. í Kópavogi en lægst er það á 2.600 kr. í Vestmannaeyjum."

Nánar má kynna sér verðlagningu á sundstöðum hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×