Innlent

Finnskur fræðingur segir ekki um Lagarfljótsorminn að ræða

Myndbandið af Lagarfljótsorminum sem farið hefur eins og eldur í sinu um Netheima er enn í umræðunni. Blaðamenn Discovery News virðast fullvissir um að ekki sé um orminn fræga að ræða. Þeir byrja á því að útlista að ekki geti verið um snák að ræða, því vatnið sé allt of kalt fyrir þá. Þá segja þeir að þótt fyrirbærið virðist synda gegn straumnum í myndbandinu þá geti verið um sjónvillu að ræða. Máli sínu til halds og trausts hefur vefsíðan samband við finnska konu sem sérhæfir sig í því að afhjúpa mál af þessu tagi.

Sú heitir Miisa McKeown og hún segist hafa rannsakað myndbandið ítarlega. Hún segist þess fullviss að fyrirbærið hreyfist alls ekki í vatninu.

Að endingu vitnar Discovery News í viðtal við Hjört Kjerúlf í Reykjavík síðdegis á dögunum. Bent er á að Hjörtur segi í viðtalinu að hann hafi fyrst tekið eftir skrímslinu þegar hann sat og drakk kaffið sitt. Hann hafi ákveðið að klára bollann og þegar hann var loks kominn niður að bakkanum hafi fyrirbærið enn verið á sínum stað. Þetta þykir þeim á Discovery News renna stoðum undir þá fullyrðingu sumra að um netadræsu í klakaböndum eða eitthvað álíka sé að ræða, en ekki Lagarfljótsorminn, sem nú er orðinn heimsfrægur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×