Innlent

Forvirkar rannsóknarheimildir yrðu einskorðaðar við alvarlegustu brotin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Með þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að innanríkisráðherra verði falið að semja frumvarp sem heimilar forvirkar rannsóknarheimildir.
Með þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að innanríkisráðherra verði falið að semja frumvarp sem heimilar forvirkar rannsóknarheimildir.
Persónuvernd telur að gæta þurfi ítrustu varfærni þegar metið verður hvort lögfesta eigi heimildir um forvirkar rannsóknarheimildir. Beiting slíkra heimilda myndi fela í sér viðamikla skerðingu á friðhelgi einkalífsins. Þetta kemur fram í umsögn Persónuverndar til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um þingsályktunartillögu um forvirkar rannsóknarheimildir.

Persónuvernd telur að til að slíkar heimildir geti átt rétt á sér er til að mynda ljóst að þær mega einungis beinast að allra alvarlegustu brotum, sem og að skilgreiningin á slíkum brotum verður að vera mjög skýr; ella kunni að skapast hætta á misnotkun heimildanna þannig að þeim sé beitt um tilvik sem með réttu ættu ekki að falla undir þær.

Umrædd þingsályktunartillaga felur í sér að innanríkisráðherra verði falið að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp um að lögregla fái sambærilegar heimildir og lögregla hefur í öðrum norrænum ríkjum til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt greinargerð með þingsályktunartillögunni væri um að ræða heimildir til að safna upplýsingum um einstaklinga og lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot sem framið hefur verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×