Innlent

Gerir ekki athugasemdir við setu Benedikts í dómnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigríður Friðjónsdóttir
Sigríður Friðjónsdóttir
Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hefur ekki gert athugasemdir við setu Benedikts Bogasonar í Hæstarétti í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni fyrrverandi ráðuneytisstjóra. Þetta segir Sigríður í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis. Benedikt og Karl Axelsson, verjandi Baldurs, eru vinir og DV greindi frá því um daginn að þeir hefðu sést opinberlega saman eftir að málið gegn Baldri var dómtekið í Hæstarétti.

Baldur hefur, sem kunnugt er, verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir innherjasvik. Hann áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og er von á dómi í því máli innan skamms. Fimm manna dómur dæmir í máli Baldurs og er Benedikt Bogason einn dómaranna. Fréttir af vináttu þeirra Karls Axelssonar og Baldurs hafa vakið athygli en þeir munu hafa brugðið sér saman í bíó að sjá Contraband eftir að málflutningur hafði farið fram í málinu og það verið dómtekið.

Rétt er að taka það fram að ekkert i lögum um Hæstarétt bannar Benedikt að sitja í dómnum en samkvæmt lögum um Hæstarétt er dómari einungis vanhæfur ef hann er skyldur málflutningsmanni. Ekkert segir til um að málflutningsmaður og dómari megi ekki vera vinir.

Fram hefur komið að sex hæstaréttardómarar töldu sig ekki geta dæmt í málinu vegna vensla við Baldur sjálfan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×