Innlent

Hæðnistónn Össurar dregur dilk á eftir sér

Hæðnistónn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra í garð Vigdísar Hauksdóttur þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi í gærdag dró dilk á eftir sér.

Siv Friðleifsdóttir tók upp þykkjuna fyrir flokkssystur sína í ræðustól Alþingis. Siv ásakaði utanríkisráðherra beinlínis um að lítillækka Vigdísi í svörum við spurningum hennar um Evrópustofu. Augljóst væri að Össur hefði sjálfur skrifað svörin við fyrirspurn Vigdísar en yfirleitt væri venjan að embættismenn ráðuneyta svöruðu fyrirspurnum frá Alþingi. Siv vill að forsætisnefnd þingsins taki málið fyrir.

Vissulega voru nokkur sérkennileg stílbrögð viðhöfð í svörum utanríkisráðherra. Fyrir utan að segja að helstu spurningar Vigdísar um Evrópustofu væru á misskilningi byggðar greip ráðherra til þess ráðs að vitna í Íslandsklukku Halldórs Laxness. Það var sem svar við spurningu Vigdísar um ástæður þess að utanríkisráðuneytið hefði beðið Evrópusambandið að setja upp Evrópustofu á Íslandi.

Í svarinu segir að þar sé rangur hattur settur á ráðuneytið, líkt og þegar Jón Hreggviðsson setti upp hatt böðulsins í Galtarholti forðum. Allt frumkvæði að Evrópustofu hafi komið frá Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×