Innlent

Steingrímur við Sigmund Davíð: Æ, þegiðu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það kastaðist í kekki milli Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, þegar Steingrímur var að stíga úr pontu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, var að spyrja Steingrím út í afstöðu hans til Evrópumála og barst talið meðal annars að deilu Íslendinga við Evrópusambandið vegna makrílstofnsins.

Þegar Steingrímur fór úr pontu kallaði Sigmundur Davíð úr þingsal. Ekki heyrðist greinilega í vefútsendingu Alþingis hvað Sigmundur kallaði. Hins vegar er ljóst að Steingrímur brást illa við: „Æ, þegiðu" var svarið og bað Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, þingmenn um að gæta orða sinna.

„Af hverju drullast þú ekki til að segja landráð," sagði Steingrímur svo eftir að hann var sestur aftur í sætið sitt.

Hér er hljóðbrot frá Alþingi þegar Steingrímur segir Sigmundi til syndanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×