Enski boltinn

Dalglish vissi ekki að Suarez hafi neitað að taka í hönd Evra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish sagði í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina eftir leik sinna manna í Liverpool gegn Manchester United í dag að hann hafði ekki hugmynd um að Luis Suarez hafi neitað að taka í hönd Patrice Evra.

Suarez var dæmdur í átta leikja bann fyrir að vera með kynþáttaníð gagnvart Patrice Evra í leik liðanna fyrr á tímabilinu.

Þegar leikmenn heilsuðust fyrir leikinn rétt Evra út hönd sína en Suarez neitaði að taka í hana. Það sá Dalglish hins vegar ekki.

„Ég vissi ekki að hann tók ekki í hönd hans," sagði Dalglish. „Ég verð bara að taka þig trúanlegan fyrir því. En ég veit það ekki því ég var ekki þarna. Ég sá þetta ekki og mér var reyndar sagt annað."

Það andaði köldu á milli leikmanna og þurfti lögreglan að ganga á milli þeirra fyrir utan búningsklefa liðanna í hálfleik. Dalglish var spurður hvort að hegðun Suarez væri um að kenna.

„Mér finnst þetta alvarleg ásökun og algjörlega óviðeigandi að kenna Luis Suarez um hvað gerðist hér í dag," svaraði hann.

Dalglish mun hafa sleppt því að mæta á blaðamannafund eftir leikinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×