Innlent

Geir Jón: Búsáhaldarbyltingunni var stjórnað af alþingismönnum

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir að búsáhaldarbyltingin í janúar árið 2009 hafi verið stýrt af þingmönnum sem sátu inni á Alþingi. Í viðtali við þáttinn Sprengisand á Bylgjunni í morgun sagði Geir Jón að ljóst væri að í mótmælunum hefðu verið gerendur á sviðinu sem voru framarlega í stjórnmálum og eru enn í dag. Hann hafi reynt að tala við fólk sem stóð þeim næst og beðið um að þarna yrði tekið á málum. Hann segir að níu lögreglumenn hafi slasast í átökunum árið 2009 og það hafi ekki munað miklu að allt færi á versta veg.

„Lögreglan var ekki í neinum átökum við stjórnmálamennina, við vorum að verja vinnustað þeirra svo þeir gætu unnið vinnuna sína en sem betur fer fór þetta ekki verr," sagði hann. „Það varð heimsatburður um nóttina 21. janúar árið 2009 þegar að ákveðinn hópur mótmælenda stillti sér upp fyrir fyrir framan lögreglumenn og vörðu þá. Það hefur aldrei gerst áður í heiminum. Fólkið var bara búið að fá nóg. Þarna varð til þessi rauðgula-bylting þar sem mótmælendur sem eru á móti ofbeldi hafði áhrif á það fólk sem ætlaði að halda áfram að grýta grjótum í lögregluna. Þetta hefði getað farið miklu verr," sagði Geir við Sigurjón M. Egilsson í morgun.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×