Erlent

Tveir blaðamenn létust í Sýrlandi

Marie Colvin á Frelsistorginu í Kaíró þegar byltingin stóð sem hæst.
Marie Colvin á Frelsistorginu í Kaíró þegar byltingin stóð sem hæst. mynd/AP
Talið er að 40 hafi látist í sprengjuárás stjórnarhersins í Sýrlandi í dag. Atvikið átti sér stað í borginni Homs en yfirvöld í Sýrlandi hafa látið sprengjum rigna á borgina síðustu daga.

Á meðal þeirra sem létust voru tveir erlendir blaðamenn. Þetta voru breski  fréttaritarinn Marie Colvin og franski ljósmyndarinnar Remi Ochlik. Þau voru stödd í sjúkratjaldi sem hafði verið komið upp í jaðri borgarinnar þegar sprengjan féll.

Fyrr í vikunni hóf Rauði Krossinn samningaviðræður við andspyrnuhópa og stjórnvöld í Sýrlandi. Er vonast til að vopnahléi verði komið á tímabundið svo að hægt sé að koma mannúðaraðstoð til þeirra svæða sem verst hafa orðið úti í átökunum.

Colvin var einn virtasti fréttaritari Bretlands. Hún missti vinstra augað árið 2001 þegar hún fjallaði um stríðsátök á Sri Lanka. Eftir það gekk hún með svartan lepp yfir auganu..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×