Innlent

Makríll stuðlar að húsasmíði á Suðurnesjum

Makrílveiðar valda því að eitt af sjávarútvegsfyrirtækjum Suðurnesja stendur í þrjúhundruð milljóna króna framkvæmdum og sést byggingarkrani nú á hreyfingu í Garðinum.

Nesfiskur er langstærsta fyrirtæki í Garði, gerir út níu skip og rekur öfluga fiskvinnslu, bæði í Garði og Sandgerði, og er með um 300 manns í vinnu. Á tímum óvissu í fiskveiðimálum og lítilla framkvæmda í landinu vekur það athygli að þarna er verið að stækka fiskvinnsluhús og tveir flutningabílar sjást aka í hlað með glænýjar stóreflis frystigræjur sem eiga að fara í nýja frystigeymslu.

Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Nesfisks, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að aukin umsvif vegna makrílsins séu helsta ástæða framkvæmdanna. Verkið hófst í nóvember og stefnt er að því að nýbyggingin verði tilbúin í næsta mánuði. Iðnaðarmenn á Suðurnesjum fá þarna kærkomið verkefni en Bragi Guðmundsson byggingarmeistari í Garði annast smíðina og er með tíu til tólf manns í vinnu.

Bergþór segir makrílveiðarnar hafa gengið að óskum. Hann vonar að framhald verði á og að Steingrímur J. Sigfússon, nýr sjávarútvegsráðherra, fylgi sömu stefnu og forverinn, Jón Bjarnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×