Íslenski boltinn

Leikmenn ÍA og Leiknis rændir í Egilshöll

Gary Martin leikmaður ÍA í leik gegn Selfyssingum á síðustu leiktíð.
Gary Martin leikmaður ÍA í leik gegn Selfyssingum á síðustu leiktíð. Guðmundur Bjarki Halldórsson
Leiknir og ÍA áttust við í æfingaleik knattspyrnu karla í Egilshöllinni í gær þar sem að bæði lið skoruðu 2 mörk. Leikurinn sjálfur fer ekki í sögubækurnar en það er öruggt að nokkrir leikmenn úr báðum liðum gleyma þessum leik seint. Þegar liðin fóru í búningsklefann eftir leik kom í ljós að þjófar höfðu látið greipar sópa og stolið miklum verðmætum.

Samkvæmt heimildum Vísis var stolið töluverðum fjármunum frá tveimur leikmönnum ÍA, peningaveski þeirra voru horfin ásamt öðrum verðmætum. Lið Leiknis varð einnig fyrir barðinu á þjófinum sem stal af þeim rándýrum farsíma auk þess sem að peningaveski voru einnig horfin á braut.

Að öllu jöfnu geyma knattspyrnuleikmenn aldrei nein verðmæti í búningsklefum Egilshallar. Heimildarmaður Vísis sagði að menn hefðu einfaldlega gleymt sér í þessu tilviki. Málið hefur verið kært til lögreglu og verða upptökur úr öryggismyndavélum notaðar við rannsókn málsins.

Eggert Kári Karlsson skoraði fyrstu tvö mörk leiksins fyrir ÍA sem leikur í Pepsideildinni í sumar eftir nokkra fjarveru á meðal bestu liða landsins. Gísli Freyr Brynjarsson og Sindri Björnsson skoruðu fyrir Leikni sem leikur í næst efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×