Fótbolti

Messi sá fyrsti í 60 mörk á einu tímabili í næstum því 40 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar í gær.
Lionel Messi fagnar í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lionel Messi skoraði tvö mörk í 4-1 sigri Barcelona á Real Zaragoza í spænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og er þar með búinn að skora 60 mörk fyrir Barca á tímabilinu. Messi er fyrsti knattspyrnumaðurinn í næstum því 40 ár sem nær að brjóta 60 marka múrinn.

Síðastur til að skora 60 mörk fyrir sitt lið á einu tímabili var Þjóðverjinn Gerd Müller sem afrekaði það með Bayern München tímabilið 1972-73. Müller skoraði reyndar 67 mörk það tímabil en Messi á enn eftir að minnsta kosti tíu leiki til að bæta það met.

Lionel Messi hefur nú skorað 60 mörk í 50 leikjum með Börsungum á leiktíðinni, 38 mörk í 30 leikjum í deildinni, 14 mörk í 9 leikjum í Meistaradeildinni, 1 mark í 1 leik í Ofurbikar Evrópu, 2 mörk í 6 leikjum í spænska bikarnum, 3 mörk í 2 leikjum í spænska ofurbikarnum og 2 mörk í 2 leikjum í Heimsmeistarakeppni félagsliða.

Lionel Messi hefur skorað 11 mörkum meira en Cristiano Ronaldo sem er marki á eftir honum í spænsku deildinni. Ronaldo er líklegur til að komast líka í 60 marka hópinn áður en tímabilið er á enda en í honum eru auk Messi og Müller; Ungverjinn Fernc Deak, Hollendingurinn Henk Groot og Englendingurinn Dixie Dean.

Fernc Deak skoraði 66 mörk fyrir ungverska liðið Szentlorinc 1945-46, Henk Groot skoraði 64 mörk fyrir Ajax Amsterdam 1960-61 ogDixie Dean skoraði 63 mörk fyrir Everton 1927-28.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×