Enski boltinn

Dalglish: Tók vitlaust á Suarez-málinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, knattspyrnustjóri Liverpool, segist hafa tekið máli Luis Suarez röngum höndum. Suarez var fyrr á tímabilinu dæmdur í átta leikja keppnisbann fyrir að vera með kynþáttníð í garð Patrice Evra.

Eftir að málið kom upp lýsti Dalglish og reyndar félagið allt yfir eindregnum stuðningi við Suarez. Leikmenn og hann sjálfur klæddust til að mynda sérútbúnum bolum honum til stuðnings fyrir leik gegn Wigan í desember síðastliðnum.

Dalglish viðurkennir nú að það hefði átt að fara öðruvísi að. „Þetta verður gert á allt annan máta ef eitthvað svona lagað kemur upp aftur. Ég vona auðvitað að það komi aldrei til þess," sagði hann.

„Ég ætla ekki að segja opinberlega hvað ég myndi gera öðruvísi en ég veit það sjálfur. Ég er ekki hræddur við að viðurkenna mistök og bæta sjálfan mig. Það er eitthvað sem allir eiga að geta gert."

„Það þurfti að taka á þessu máli á þessum tíma og við gerðum það. En á endanum urðum við bara að hætta að vorkenna sjálfum okkur og halda áfram. Ég held að Luis og allir aðrir hjá félaginu hafi gert það og séu að gera það nú."

„Við verðum bara að halda áfram að lifa lífinu og passa upp á að læra af lexíum fortíðar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×