Innlent

"Þetta er mikið afrek fyrir hvaða listmenn sem er"

Hljómsveitin Of Monsters and Men er búin að selja hljómplötur í Bandaríkjunum fyrir 60 milljónir króna en plata hennar situr nú í sjötta sæti bandaríska vinsældarlistins. Bandarískur umboðsmaður sveitarinnar segir þetta mikið afrek.

Það hafa af og til undanfarnar vikur borist fréttir af velgengni Of Monsters and Men vestanhafs. En ef einhver þurfti staðfestingu á því hversu langt sveitin hefur náð þá kom hún með nýjasta Billboard listanum. Platan þeirra, er sú sjötta mest selda í Bandaríkjunum í síðustu viku, með 55 þúsund seld eintök. Tveimur sætum ofar en glæný plata frá Madonnu.

„Þetta er mikið afrek fyrir hvern sem er, ekki bara nýja hljómsveit frá útlöndum. Þetta er mikið afrek fyrir hvaða listamenn sem er," segir Heather Kolker, umboðsmaður hljómsveitarinnar.

Það er erfitt að komast þetta ofarlega á Billboard-listann. Enda er þetta afrek sem íslenskur tónlistarmaður eða menn hafa ekki unnið áður.

„Það er mjög erfitt. Ef maður skoðar hverjir aðrir eru á þessum lista þá eru þar Adele, Madonna og tónlistin úr Hungurleikunum, sem er mjög vinsæl hérna núna. Það eru fáir á þessum lista sem maður hefur ekki heyrt um," segir hún.

Billboard-listinn tekur með í reikninginn sölu í gegnum Itunes þar sem eintakið kostar 7 dollara og í plötubúðum þar sem eintakið kostar 10 dollara. Ef við gefum okkur að salan skiptist til helminga á milli þessara aðila má gera ráð fyrir að hljómsveitin hafi selt fyrir 467.500 dollara á einni viku eða tæpar sextíu milljónir króna. Ekki amalegt fyrir hljómsveit sem var að keppa í Músíktilraunum í hitt í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×