Innlent

Hannes forsetaframbjóðandi: Vonbrigði hversu fáir mæta á fundi

Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi.
Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi.
Hannes Bjarnason forsetaframbjóðandi segir það vonbrigði hversu fáir mæta á framboðsfundi sem hann heldur nú víða um land. Enginn mætti á fund Hannesar á Eskifirði í gær nema blaðamaður Austurgluggans, ekki einu sinni Hannes sjálfur.

Hannes. sem er búsettur í Noregi, kom til landsins fyrir viku og hóf þá fundarherferð sína um Ísland. Hann var staddur á Austurlandi þegar við náðum tali af honum í morgun, á leið á Fáskrúðsfjörð þar sem hann hafði boðað til fundar nú klukkan tólf.

„Ég var með þrjá fundi í gær, verð með þrjá fundi í dag, tvo á morgun, þannig að þetta er slatti," segir Hannes. Aðspurður hvernig mætingin hafi verið segir hann: „Það hefur verið upp og ofan. Til dæmis í gær höfðu auglýsingar sem ég hafði sent á undan mér með póstinum bara ekki borist, þannig að það var hreinlega engin mæting á þeim fundum. En ég var á svæðinu, hitti fólk og hengdi upp plakök þannig að mér varð gagn af þessari ferð."

Samkvæmt nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar á fylgi frambóðenda ætla 0,3% ætla að kjósa Hannes.

Austurglugginn greinir frá því að Hannes hafi boðað til fundar á Eskifirði , en að þangað hafi enginn mætt nema blaðamaður Austurgluggans og að sjálfur hafir hann ekki einu sinni komið á fundinn. „Ég var á svæðinu," segir Hannes. „Ég þurfti að leita svolítið að þessu þar sem kirkju og menningarmiðstöðin er skráð til húsa. Þar er bara verið að byggja þjónustuíbúðir, þannig að ég verð að viðurkenna að ég eyddi einhverjum fimm mínútum í að leita að fundinum, að fundaraðstöðunni, og svo þegar ég kem þangað þá er enginn þar, ekki einu sinni umræddur blaðamaður."

Þannig segist Hannes hafa farið um bæinn og spjallað við fólk, og heimsóknin hafi því verið afar gagnleg. Auk fundarins á Fáskrúðsfirði, fundar Hannes í dag á Breiðdalsvík og Djúpavogi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×