Viðskipti innlent

Telja að breytingar á virkjanaáætlun kosti 270 milljarða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gísli Hauksson er framkvæmdastjóri GAMMA.
Gísli Hauksson er framkvæmdastjóri GAMMA. mynd/ arnþór.
Breytingar sem urðu á drögum að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu með því að færa virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun í biðflokk, leiða til þess að fjárfestingar og afleidd áhrif verða um 270 milljörðum krónum minna á árunum 2012 - 2016 en áður var áætlað. Þetta er mat greiningarfyrirtækisins GAM management sem hefur skilað Alþingi umsögn vegna þingmálsins.

Samkvæmt matinu munu fjárfestingar í orkuframleiðslu og flutningi dragast saman um 120 milljarða króna á árabilinu 2012-2016 og fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og afleidd áhrif munu dragast saman um 150 milljarða króna. Samtals verður því fjárfesting og afleidd áhrif um 270 milljörðum króna minni en ella á umræddu tímabili. Uppsafnaður hagvöxtur verður 4-6% minni fyrir vikið og atvinnulífið verður af u.þ.b. 5.000 ársverkum á þessu fjögurra ára tímabili.

GAMMA segir að þessar virkjanir séu í hópi hagkvæmari virkjanakosta á landinu. Miðað við það raforkuverð sem líklegt sé að iðnfyrirtæki væru tilbúinn að greiða á Suðvesturhorni landsins megi telja líklegt að arðgreiðslugeta Landsvirkjunar minnki verulega til lengri tíma litið með þeim breytingum sem gerðar eru á tillögu til þingsályktunar um áætlun og vernd og orkunýtingu landssvæða. Það mun síðan rýra hag ríkissjóðs sem eiganda Landsvirkjunar. Telja megi mikilvægt að nýta þann slaka sem enn sé í þjóðarbúskapnum og búast megi við að verði á árabilinu 2012-2015 til að ráðast í orkuframkvæmdir til að draga úr líkum á að óæskileg þensla skapist ef stórframkvæmdir eru á sama tíma og hagkerfið er við fulla framleiðslugetu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×