Innlent

Könnuðust ekki við að styðja Ástþór

Ástþór Magnússon.
Ástþór Magnússon.
Stikkprufur sem yfirkjörstjórn í Norðausturkjördæmi hefur framkvæmt hefur leitt í ljós að minnsta kosti tíu einstaklingar kannast ekki við að hafa skrifað nafn sitt á undirskriftarlista Ástþórs Magnússonar forsetaframbjóðanda.

Samkvæmt upplýsingum frá Páli Hlöðvessyni, formanni yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, kom þetta í ljós eftir að kjörstjórninni hafði meðal annars borist ábendingar frá almenningi.

Stikkprufurnar eru framkvæmdar með þeim hætti að það er hringt í ákveðið úrtak þeirra sem skrifa sig á listann. Í þessu tilfelli var hringt í tíu einstaklinga, og enginn þeirra kannaðist við að hafa skrifað sig á listann að sögn Páls.

„Nái hann að skila inn nægilegum fjölda undirskrifta munum við ekki taka afstöðu til nafnanna sem slíkra," útskýrir Páll sem bendir á að það sé innanríkisráðuneytið sem fái málið inn á sitt borð og fái nokkurt svigrúm til þess að kanna hvort listarnir séu löglegir.

Ástþóri var gefinn frestur til dagsins í dag til þess að skila inn tilhlýðilegum fjölda meðmælanda.

Ekki er ljóst hvort sama vandamál hafi komið upp í öðrum kjördæmum. Páll segir að enginn annar frambjóðandi hafi reynst vera með einstalinga á lista sem könnuðust ekki við að hafa skrifað nafn sitt á listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×