Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - Keflavík 3-2

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
ÍA er enn með fullt hús stiga á toppi Pepsí deildar karla eftir 3-2 sigur á Keflavík í rafmögnuðum háspennuleik á Akranesi þar sem Garðar Bergmann Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið á síðustu mínútunni en Keflvíkingar sitja eftir með sárt ennið þrátt fyrir fín tilþrif í leiknum.

Aðstæður voru fyrsta flokks og leikurinn líka. ÍA byrjaði betur og komst verðskuldað yfir á 21. mínútu þegar liðið nýtt þriðja dauðafærið á stuttum kafla. Keflavík náði að jafna fyrir hálfleik og sótti stíft síðustu mínútur hálfleiksins í leit að öðru marki en allt kom fyrir ekki.

Fjörið hélt áfram í seinni hálfleik því líkt og þeim fyrri sótti bæði lið af krafti. ÍA byrjaði aftur betur og komst aftur yfir, á 64. mínútu, en Keflvíkingar voru ekki lengi að jafna og upp hófst frábær endasprettur.

Keflavík átti margar góðar sóknir, var mun meira með boltann en það voru varamenn ÍA sem gerðu gæfumuninn. Dean Martin fór mikinn á hægri kantinum og bjó til þrjú dauðafæri með sendingum sínum frá hægri. Tvær þeirra voru framlengdar af samherja og skiluðu marki en eftir þá þriðju bjargaði Ómar Jóhannsson vel í markinu. Það var annar varamaður, Garðar Bergmann Gunnlaugsson, sem tryggði ÍA sigurinn með sínu fyrsta marki á tímabilinu eftir að Dean Martin og Gary Martin höfðu leikið hann uppi.

Leikurinn verðskuldaði sigurmark á loka mínútunni og má segja að heppnin hafi verið með ÍA. Keflavík hefði hæglega getað tryggt sér sigurinn því eftir að Ármann Smári Björnsson fór útaf meiddur var vörnin allt annað en traust en hún hafði verið mjög góð fram að meiðslum hans.

Garðar: Erum vél sem hættir ekki"Þetta var ljúft. Það var sérstaklega ljúft að skora sigurmarkið í svona leik. Þetta var mikil barátta og mér fannst við ná góðu spili á köflum og þá sást hvað við vorum hættulegir. Það var mikilvægt að landa sigri," sagði Garðar Bergmann Gunnlaugsson sem var hetja ÍA í kvöld.

"Ég hef verið frá vegna meiðsla í ár og það hefur verið erfitt að koma til baka. Ég er ekki kominn í mitt besta form en þetta kemur. Ég bjó mig undir það alla vikuna að setja hann og það gekk eftir," sagði Garðar segir ÍA eiga eftir að leika enn betur í sumar.

"Við eigum að geta spilað betur. Við sýndum það í vetur en mér finnst stundum vera stress hjá mönnum á boltanum og þeir vera feimnir við að halda honum en það sést um leið og við höldum boltanum og látum hann ganga að þá sköpum við stór hættu.

"Lykillinn að þessum sigrum er að við höfum haldið þéttleikanum í vörninni og þó við fáum á okkur tvö mörk í kvöld sem er ekki nógu gott þá erum við með frekar þéttan pakka. Við vinnum vel í vörninni og þá snýst þetta um að skora aðeins meira en hinir. Svo sést karakterinn í liðinu. Við hættum ekki. Við erum vél sem heldur áfram þar til leikurinn er búinn," sagði Garðar að lokum.

Zoran: Vorum mikið betri fótboltalega séð"Það er alltaf slæmt að tapa hvort sem andstæðingurinn skorar á fyrstu eða síðustu mínútu en mér fannst við vera betra liðið og skapa okkur færi. Í stöðunni 2-2 fáum við dauðafæri sem við hefðum átt að klára og fáum svo á okkur allt of ódýrt mark á síðustu mínútunni," sagði Zoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur í leikslok.

"Við spilum mjög vel fyrir utan byrjun fyrri og seinni hálfleiks. Það vantaði smá heppni í að klára þetta betur en við skorum tvö mörk á útivelli og það á að duga í að minnsta kosti eitt stig," sagði Zoran sem missti Hilmar Geir Eiðsson meiddan af leikvelli snemma leiks.

"Þetta virðist ekki vera alvarlegt sem betur fer en þetta var mikið áfall fyrir okkur. Hilmar hefur verið sterkur á kantinum og við náum ekki að loka eins vel á kantinum, varnarlega, og við höfum gert með hann inná. Við gefum þeim mark og hefðum átt að gera betur líka í öðru markinu.

"Við spilum fótbolta og það gekk vel í dag en því miður þá fengum við ekkert út úr þessu. Okkur var ekki spáð góðu gengi og ég hef trú á þessu liði og við höfum sýnt í fyrstu fjórum leikjunum að við getum spilað fínan fótbolta og við sýndum það gegn efsta liðinu í dag. Við vorum mikið betri fótboltalega séð. Við fengum færi, skorum tvö mörk en því miður þá dugði það ekki," sagði Zoran að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×