Skoðun

Stuðningsgrein: Tungan er beitt vopn

Sigurbjörg Bergsdóttir skrifar
Ég kýs Þóru sem næsta forseta vegna þess að hún er heiðarleg, einlæg og er í góðum tengslum við fólkið í landinu og ber mikla virðingu fyrir skoðunum annarra. Ég veit hvað býr í Þóru og ég er þess fullviss að hún mun valda þessu embætti.

Kosningabarátta Þóru einkennist af heilindum og virðingu fyrir fólki og þannig þekki ég hana. En það sem gerir Þóru kleift að sinna þessu mikilvæga hlutverki er það að hún á alveg einstaklega góðan og heilbrigðan mann sem stendur eins og klettur við bakið á henni. Það vita allir sem eiga börn að afar mikilvægt er að hafa góðan stuðning frá maka og mér þykir það merki um framfarir og þróun í jákvæða átt hvernig Svavar Halldórsson styður við bakið á konu sinni.

En að þessu sögðu langar mig líka að segja hvað það hryggir mig að fylgjast með hvernig er ráðist á framboð Þóru í gegnum Svavar. Það sem ég á við í þessum efnum er hvernig forsetaframbjóðandi getur réttlætt fyrir sjálfum sér að eyða dýrmætum tíma sínum í að gagnrýna meðframbjóðendur eða maka þeirra þegar þessum tíma ætti að verja í að tala við fólkið í landinu um það hvað það hefur sjálft fram að færa til embættisins.

Það þarf engan Einstein til að átta sig á að við erum öll mannleg sama hver við erum. Það er enginn fullkominn og það er hægt að gagnrýna allt og alla ef viljinn er fyrir hendi. Mér finnst það segja svo mikið um persónu hvernig hún kemur fram við annað fólk og það sem fólk leyfir sér í kosningabaráttu, sem og annars staðar, sýnir innri mann. Ég hef aldrei verið hrifin að því þegar fólk situr og ver tíma sínum og annarra í að rífa niður og gagnrýna í stað þess að byggja upp og bæta það sem þarf að laga. Það þarf ákveðinn myndugleika og hugrekki til að geta staðið með sjálfum sér án þess að gera lítið úr öðrum í leiðinni.

Uppbyggileg gagnrýni er holl en gagnrýni sem felur í sér ósannindi og ærumeiðingar er ekki af því góða. Tungan er beitt vopn og ég segi að það sé merki um þroska og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum þegar henni er beitt af skynsemi og heiðarleika.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×