Skoðun

Stuðningsgrein: Hún verður vitur forseti

Guðmundur W. Vilhjálmsson skrifar
Tveir Þor-geirar eru frægir úr sögum okkar Íslendinga. Annar þeirra er Þorgeir Hávarsson, kjarkmaður mikill en kjarkur hans var í öfugu hlutfalli við vit. Hann drap að ósekju fjölda manna sem minna máttu sín til að auka virðingu sína. Fyrirmyndir hans voru þeir íslenskir sem fóru til hirða norskra konunga til að elta lýð og drepa.

Annar þor-geir var Þorgeir Ljósvetningagoði, sem hafði góðan kjark, en því fylgdi vit meira. Sá Þorgeir hafði kjark til að leggjast undir feld til að hug- leiða gerning til sátta þegar við lá að kristnir menn og heiðnir myndu berjast á Alþingi til úrslita um kristnitöku þjóðarinnar. Undan feldi kom þessi Þorgeir með afurð vit síns, sáttatillögu sem þingheimur sættist á og komst þá friður með þjóðinni.

Í umræðum um framboð einstaklinga til kjörs um embætti forseta Íslands hefur komið fram að frambjóðendur þurftu að sanna kjark sinn með yfirlýsingum um þor til að beita valdi forsetans skv 26. gr. stjórnarskráinnar til að neita að undirrita lög og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þau lög. Ekki var spurt um kjark til að neita ekki að undirrrita. Forseti Íslands hafði sýnt kjark til þessara aðgerða ítrekað.

Í Icesave málinu skipaði Alþingi nefnd til fara til London og semja við Breta og Hollendinga um þau afdrífaríku mál. Til þeirrar ferðar voru valdir menn sem litla reynslu höfðu í milliríkjamálaferlum, en lög til að staðfesta niðurstöður samninga sem nefndin kom með voru samþykkt af tæpum meirhluta þingsins.

Forsetinn neitaði að staðfesta lögin og vísaði þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin hafnaði þeim.

Nú taldi þingið að Icesave málið væri enn komið í sínar hendur, skipaði nýja nefnd til að semja við við Breta og Hollendinga, útbjó hana með nesti og nýja skó og réð þeim til fulltingis lögfræðing sem hafði mikla reynslu í milliríkjadeilum, Mr Lee C. Buchheit. Sú nefnd kom heim með samningsuppkast til samþykkis Alþingis. Þessi tvenn samningsdrög áttu ekkert sameiginlegt nema nafnið. Seinna samningsuppkastið var það miklu betra og fannst mönnum að forsetinn hefði forðað þjóðinni frá hörðum kosti.

Alþingi vann nú það verk sem það var kjörið til og samþykkti drögin með 70% atkvæða og létti mörgum. Slíkur meirihluti er fátíður á alþingi.

En nú kemur að spurningunni um hvort beiting 26. Gr. stjórnarskrárinnar er ávanabindandi, þvi enn beitir forseti vor synjunarheimild sinni og málið fer aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar er lögunum enn synjað gildis. Vitað var að betri samningur myndi ekki fást. Má segja að örlögin hafi í upphafi stefnt okkur í málaferli. Að mínu mati hefði sitjandi forseti lokið sínum ferli á Bessastöðum með meiri reisn með undirritun laga um síðara samningsuppkastið. En var þjóðin þá ekki dómbær í þessu máli? Nei, hún var ekki undirbúin né nógu vel upplýst í mjög flóknu máli. Fjölmiðlar greindu ekki nógu vel frá því hvað tæki við ef samningnum yrði hafnað. Fyrir nokkru birstist grein í fjölmiðli hér þess efnis að töluvert hefði verið greitt inn á Icesave reikninginn. Kona ein brást svo við þessari frásögn: Ég hélt að við hefðum í þjóðaratkvæðagreiðslunni ákveðið að borga ekki skuldir óreiðumanna, að borga ekki neitt!

Umdeildar fjárhæðir voru innistæður einstaklinga, sveitafélaga og hópa sem féllu fyrir yfirboði Landsbankans á vöxtum á Icesavereikningum í Englandi, Hollandi og víðar. Svo kom hrunið og akkerisfestar voru engar. Engar trygginar voru að baki þessum innstæðum. Útibú Landsbankans erlendis voru heimilislausir flækingar. Ríkisstjórnir landa þar sem íslensku útibúin störfuðu greiddu innistæðueigendum hámarksbætur skv. reglum Evrópusambandsins, sem voru 20.000 evrur.

Við hrunið ákvað ríkisstjórn Íslands að allar innistæður í íslenskum bönkum á Íslandi skyldu vera að fullu tryggðar.

Nú eru Icesave reikningarnir efnisþáttur í málaferlum Bretlands og Hollands gegn ríkisstjórn Íslands. Krafa þeirra er að Ísland endurgreiði útlagt fé þessara ríkisstjórna til innistæðueigenda. En jafnframt er bent á mismunun í bótum á Íslandi annars vegar, þar sem innistæður voru að fullu greiddar, og hinsvegar þar sem hámarksbætur námu 20.000 evrum. Vonandi nær krafa í dómsmálinu um fullar bætur ekki fram að ganga. Bú Landsbankans í Bretlandi mun eiga sjóði til að greiða bætur miðað við innistæður að upphæð eur 20.000.

Falli dómur á þá leið að íslenska ríkinu beri að bæta að fullu hinum erlendu innistæðueigendum, þar sem um mismunun hefði verið að ræða, verður um mikið hærri upphæðir að ræða.

Forseti Íslands hefur nú setið í embætti í 16 ár, eða fjögur kjörtímabil. Kóngar og keisarar „ríkja" til æviloka en þeir eru ekki þjóðkjörnir. Forseti Íslands á ekki að gegna embætti lengur en þrjú kjörtímabil, enda mannval mikið hér, eins og forsetinn hefur ítrekað lagt áherslu á. Við það val eiga stjórnmálaflokkar ekki að koma. Það hefur reynslan sýnt.

Næsti forseti fær m.a. það hlutverk að brúa bil milli forseta og þings. Virðing þingsins er í lágmarki meðal þjóðarinnar en á því verður þingið sjálft að finna lausn. Það er ekki í verkahring forseta.

Við þessar kosningar sem nú eiga að fara fram tel ég Þóru Arnórsdóttir góðan kost í embættið. Ég tel hana hafa margumrætt þor, bæði til að gera – og gera ekki. Hún mun skilja að Alþingi, ríkisstjórn, dómstólar og forseti, allt er þetta hluti af þjóðinni.

Ég mun kjósa Þóru Arnórsdóttir. Ég veit að hún verður vitur forseti.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×