Innlent

Hommar deila um eignarhald á ketti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Köttur.
Köttur. mynd/ getty.
Karlmaður sakar fyrrverandi sambýlismann sinn um að hafa stolið frá sér ketti sem þeir héldu á meðan þeir voru í sambúð. Hann hefur kært manninn til lögreglunnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu krafðist þess að fá að gera húsleit hjá sambýlismanninum fyrrverandi til að kanna hvort hann sé enn með köttinn í fórum sínum, en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður hafnað kröfunni og Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu í gær. Meðferð málsins er enn fyrir dómstólum þrátt fyrir að kröfu um húsleitina hafi verið hafnað. Sambýlismaðurinn hefur viðurkennt að hafa farið að heimili mannsins og sótt köttinn.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að mennirnir deili um það hvor sé eigandi kattarins. Úr slíkum einkaréttarlegum ágreiningi verður, eins og atvikum málsins háttar, skorið í dómsmáli þeirra í milli. Þótt lögregla hafi vald til að rannsaka hvort varnaraðili kunni að hafa framið refsivert brot með brottnámi kattarins umrætt sinn og gera nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við þá rannsókn, leiði almannahagsmunir ekki til þess að krafa sóknaraðila um húsleit hjá varnaraðila nái fram að ganga. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.

____________________________________

Athugasemd 20. júlí kl. 00:22

Upphaflega var fullyrt að sambýlismaðurinn hafi farið inn í íbúð karlmannsins og náð í köttinn. Það má hvergi lesa úr umræddum úrskurði Hæstaréttar. Maðurinn fór að heimili hans og náði í köttinn. Orðrétt segir í úrskurðinum:

"Eins og þar greinir játaði varnaraðili við skýrslutöku hjá lögreglu 2. júlí síðastliðinn að hafa farið 28. júní sama ár að heimili A á [...], á meðan hinn síðarnefndi var að heiman, í því skyni að sækja köttinn. Kvaðst varnaraðili einfaldlega hafa farið og náð í köttinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×