Viðskipti innlent

Selja 7% hlut hvor

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnendur Eimskips staðfestu í kvöld frétt Stöðvar 2 og Vísis að stærstu hluthafar félagsins, gamli Landsbankinn og Yucaipa, hyggjast selja 14% hlut í félaginu. Kaupverðið er 5,7 milljarðar króna. Hvor aðili um sig selur 14 milljónir bréfa en kaupandinn er Lífeyrissjóður verslunarmanna.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Eimskip að Straumur fjárfestingabanki hafði milligöngu um viðskiptin sem fara fram í undanfara að mögulegri skráningu Eimskips í kauphöll. Eimskip telja að viðskiptin falli vel að þeim áformum félagsins og með þeim breikkar hluthafahópur Eimskips. Eftir viðskiptin á Lífeyrissjóður verzlunarmanna samtals 14,6% hlut og er þriðji stærsti hluthafi Eimskips á eftir Yucaipa sem samtals á 25,3% hlut og Landsbanka Íslands sem á um 30,3% hlutafjár.

Í tilkynningunni segir jafnframt að undirbúningur að mögulegri skráningu Eimskips á NASDAQ OMX Iceland gangi vel. Gert sé ráð fyrir því að fram fari almennt hlutafjárútboð samhliða skráningu þar sem fjárfestum og almenningi gefst kostur á að eignast hlut í félaginu. Fyrirhugað er að skráning fari fram á síðasta ársfjórðungi þessa árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×