Íslenski boltinn

Þórir: Ummæli Garðars dónaleg | Óvíst hvort ummælin fari fyrir aganefnd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ.
Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ. Mynd/Pjetur
„Ósmekklegt og dónaskapur." Þannig lýsti Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, skrifum Garðars Gunnlaugssonar, leikmanns ÍA, á Facebook í gær.

Garðar fór ófögrum orðum um Hörð Magnússon, íþróttafréttamann og stjórnanda Pepsi-markanna, á Facebook-síðu sinni í gær. Var hann ósáttur við gagnrýni Harðar á sig í þættinum.

KSÍ birti fyrr í sumar yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem „aðildarfélög KSÍ eru hvött til að brýna það fyrir sínum félagsmönnum að fara varlega í færslur sínar á samskiptavefjunum."

„Aðgát skal höfð í nærveru sálar er orðatiltæki sem gæti átt við hér. Það er ekki sama hvað sett er á Facebook eða Twitter," sagði meðal annars.

Í fréttinni er einnig tilgreint að framkvæmdarstjóra KSÍ er heimilt að skjóta ummælum leikmanna til aganefndar en Þórir gat ekki fullyrt hvort hann myndi gera það í þessu tilfelli, enda beindust orðin ekki gegn aðila innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

„Það er spurning hvort að það er hægt. Íþróttafréttamenn eru vitaskuld beinir aðilar að íþróttinni en samt ekki," sagði hann.

Í 18. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál segir eftirfarandi:

„Framkvæmdastjóra KSÍ er heimilt að vísa til aga- og úrskurðarnefndar atvikum sem skaðað geta ímynd knattspyrnunnar eða þeirra sem þátt taka í leiknum. Slík atvik hafa þá ekki komið fram í atvikaskýrslum dómara og/eða eftirlitsmanns á leiknum en geta verið hvers kyns ósæmileg framkoma á leikstað eða á annan hátt opinberlega."

Gísli Gíslason, stjórnarmaður í KSÍ, setti nafn sitt við færslu Garðars á Facebook með því að „líka við" færsluna.

„Gísli verður að svara fyrir það sjálfur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×