Körfubolti

Bandaríkjamenn rúlluðu yfir Argentínu í seinni hálfleiknum | 8 liða úrslitin klár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andres Nocioni gat ekki stoppað Lebron James og félaga.
Andres Nocioni gat ekki stoppað Lebron James og félaga. Mynd/Nordic Photos/Getty
Eftir basl á móti Litháen voru margir búnir að spá því að bandaríska körfuboltalandsliðið myndi lenda í vandræðum með Argentínu á Ólympíuleikunum í London í gærkvöldi. Svo varð ekki raunin. Argentínumenn stóðu reyndar í bandaríska liðinu fram í hálfleik en þá settu þeir bandarísku í fluggírinn.

Bandaríkjamenn unnu leikinn 126-97 eftir að hafa verið 60-59 yfir í hálfleik. Bandaríska liðið komst á 42-17 sprett í þriðja leikhlutanum og gerði þá snögglega út um leikinn.

Kevin Durant skoraði 17 af 28 stigum sínum í þriðja leikhlutanum en hann skoraði þá jafnmikið og allt argentínska liðið til samans og hitti meðal annars úr 5 af 6 þriggja stiga skotum sínum.

LeBron James skoraði 18 stig, Chris Paul var með 17 stig og 7 stoðsendingar og þeir Andre Iguodala og Kevin Love voru báðir með 13 stig og 9 fráköst. Manu Ginobili skoraði 16 stig fyrir Argentínu.

Átta liða úrslitin eru nú klár og líta þannig út:

Miðvikudagurinn 8. ágúst

13.00 Rússland-Litháen

15.15 Frakkland - Spánn

19.00 Brasilía - Argentína

21.15 Bandaríkin - Ástralía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×