Körfubolti

Stigamet hjá bandaríska liðinu gegn Nígeríu á ÓL | 156 stig

LeBron James, Carmelo Anthony, Kevin Durant, Kevin Lowe.
LeBron James, Carmelo Anthony, Kevin Durant, Kevin Lowe. Nordic Photos / Getty Images
Bandaríska karlalandsliðið í körfuknattleik setti nýtt stigamet í gær á Ólympíuleikunum þegar liðið burstaði Nígeríu 156-73. Gamla metið var í eigu Brasilíu frá árinu 1988 þegar liðið skoraði 138 stig gegn Egyptalandi.

Bandaríska liðið byrjaði með miklum látum og skoraði alls 49 stig í fyrsta leikhluta af alls fjórum. Í hálfleik var staðan 78-45, bandaríska liðið skoraði „aðeins" 29 stig í öðrum leikhluta, 41 stig í þeim þriðja og 37 stig í fjórða leikhluta.

„Ég hef aldrei séð lið sem ég hef þjálfað hitta eins vel, strákarnir klikkuðu varla á skoti," sagði Mike Krzyzewski þjálfari bandaríska liðsins.

Andre Iguodala bætti stigametið fyrir bandaríska liðið með þriggja stiga skoti 4:36 mínútum fyrir leikslok, og liðið bætti 17 stigum við það sem eftir lifði leiksins.

Carmelo Anthony, leikmaður New York Knicks, skoraði 37 stig á aðeins 14 mínútum, en 10 af alls 12 þriggja stiga skotum hans rötuðu rétta leið.

„Það fór allt ofaní," sagði Anthony eftir leikinn en bandaríska liðið skoraði alls 29 þriggja stiga körfur eða samtals 87 stig.

Stigaskor bandaríska liðsins: Carmelo Anthony 37, Russel Westbrook 21, Kobe Bryant 16, Kevin Love 15, Kevin Durant 14, Deron Williams 13, Iguodala 9, Anthony Davis 9, James Harden 7, Chris Paul 7, LeBron James 6 og Tyson Chandler 2.

LeBron James og Kobe Bryant léku ekkert í síðari hálfleik, Carmelo Anthony og Kevin Durant voru lítið sem ekkert notaðir í síðari hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×