Körfubolti

Krzyzewski hættir með bandaríska liðið eftir úrslitaleikinn á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Krzyzewski.
Mike Krzyzewski. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mike Krzyzewski, þjálfari bandaríska karlalandsliðsins í körfubolta, hefur ákveðið að úrslitaleikurinn á Ólympíuleikunum í London verði hans síðasti með liðið. Bandaríkjamann spila við Spánverja um Ólympíugullið á morgun.

Mike Krzyzewski tilkynnti blaðamönnum þetta í dag á síðustu æfingu bandaríska liðsins fyrir úrslitaleikinn en allt bendir til þess að liðið vinni þá sitt annað Ólympíugull undir stjórn Krzyzewski.

Mike Krzyzewski, sem er orðinn 65 ára gamall, tók við bandaríska landsliðinu árið 2005 þegar liðið var í tómu rugli og hefur unnið frábært starf á þessum sjö árum. Krzyzewski þjálfar einnig körfuboltalið Duke-háskólans en hann hefur unnið fjóra NCAA-meistaratitla með Duke.

Undir stjórn Mike Krzyzewski vann bandaríska liðið Ólympíugull í Peking 2008 og Heimsmeistaratitil í Istanbul 2010. Liðið varði í 3. sæti á HM 2006 og vann líka brons þegar hann stýrði liðinu á HM 1990 í Argentínu.

Bandaríska landsliðið hefur unnið 42 af 43 leikjum sínum síðan að Mike Krzyzewski tók við liðinu árið 2005 sem gerir magnað 97,7 prósent sigurhlutfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×