Viðskipti innlent

Erlend kvikmyndaverkefni velta milljörðum hérlendis

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Russell Crowe í hlutverki Noah, en myndin var tekin upp hérlendis í sumar.
Russell Crowe í hlutverki Noah, en myndin var tekin upp hérlendis í sumar.
Erlend kvikmyndaverkefni hér á landi í sumar hafa velt milljörðum. Enn eitt stórverkefnið er í burðarliðnum.

Aldrei hafa jafn margar erlendar kvikmyndir verið teknar hér á landi og í sumar. Stórmyndir á borð við Oblivion og Noah voru teknar hér og nú eru tökur að hefjast á myndinni The Secret life of Walter Mitty í leikstjórn Ben Stiller. Kvikmyndafyrirtækið True North hefur unnið að öllum þremur verkefnunum og Helga Margrét Reykdal framkvæmdastjóri segir að þau hafi skilað miklu til þjóðarbúsins.

"Í fyrsta lagi eru þetta erlend verkefni sem eru fullfjármögnuð erlendis frá og eru að koma með mikinn gjaldeyri til landsins. Í öðru lagi er þetta að skapa heilmikið af störfum í kringum sig. Bein störf eru á bilinu 140-240 per verkefni. Síðan er náttúrlega heilmikið af afleiddum störfum sem koma út af allri þjónustunni sem við erum að kaupa," segir hún.

Að auki bendir hún á að í þessum tölum séu íslenskir aukaleikarar ekki taldir með en svo dæmi sé tekið fóru um hundrað og fimmtíu íslendingar með aukahlutverk í Noah. Helga Margrét bendir einnig á að starfsemi af þessu tagi líkist að miklu leyti venjulegri einkaneyslu.

"Þannig að það er margt sem að skilar sér í kringum svona verkefni. Svo ekki sé talað um alla auglýsinguna sem Ísland fær, bæði þegar verkefnin eru gerð og þegar þau eru sýnd," segir Helga.

Eins og áður sagði hefur True north komið að þremur stórum verkefnum á þessu ári og segir Anna Margrét að það fjórða sé í burðarliðnum en hún vill ekki greina nánar frá því á þessari stundu.

„Þannig að þetta er hætt að hlaupa á milljónum og farið að hlaupa á milljörðum," segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×