Skoðun

Veist þú betur Ögmundur ?

Karvel Aðalsteinn Jónsson skrifar
Þann 10. febrúar n.k. mun Félag um foreldrajafnrétti standa fyrir ráðstefnu um fyrirhugaðar breytingar á barnalögum. Á ráðstefnunni verður að mestu fjallað um heimild dómara til að dæma foreldra í sameiginlega forsjá. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur fellt þessa heimild úr upphaflegu frumvarpi Rögnu Árnadóttur og eru fyrir því afar hæpin rök.

Við Íslendingar miðum okkur jafnan við nágrannaþjóðirnar þegar kemur að lagasetningu en í þessu tilfelli er Ögmundur að ganga gegn því og taka mið af þröngum sjónarmiðum þeirra sem aldrei hafa viljað breyta neinu í þessum efnum.

Allar aðrar þjóðir sem við miðum okkur við hafa haft heimild dómara fyrir sameiginlegri forsjá um árabil og í Noregi – landinu sem Íslendingar horfa mikið til hefur slík heimild verið til síðan 1981! Fjölmargar fagnefndir hafa fjallað um þetta ákvæði og hvergi stendur fyrir dyrum að fella burt slíka heimild í nágrannalöndum okkar.

Það verður að hafa í huga að margar forsjárdeilur eru deilur um efni sem koma forsjá eða velferð barna ekkert við.

Ég fullyrði að ég mæli fyrir munn mörg þúsund foreldra af báðum kynjum þegar ég spyr:

Ætlar þú Ögmundur virkilega að viðhalda þessu áratuga óréttlæti – að ekki megi dæma mildasta úrræðið og það sem börnum er fyrir bestu þegar dómari telur svo? Ætlar þú að viðhalda því, að áfram megi með dómi þvinga forsjá af hæfu foreldri og rýra hlutverk þess af ástæðulausu? Ætlar þú með þessu áfram að skapa íslenskum börnum lakari stöðu en börnum í nágrannalöndum okkar? Hvers vegna eiga íslensk börn ekki að fá að njóta forsjá beggja foreldra sinna sé það þeim fyrir bestu?

Það er út í hött að ekki megi dæma foreldrum sameiginlega forsjá á Íslandi sé það börnum fyrir bestu – meðan það er hægt í öllum V-Evrópuríkum sem við miðum okkur við. Eða veist þú e.t.v. betur en allir aðrir Ögmundur?




Skoðun

Sjá meira


×