Fótbolti

Katrín spilaði með Djurgården á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Katrín í leik með íslenska landsliðinu.
Katrín í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Daníel
Katrín Jónsdóttir spilaði með sænska liðinu Djurgården í fyrsta sinn í rúma tvo mánuði þegar að liðið tapaði fyrir Kopparbergs/Göteborg í dag, 2-0.

Katrín hefur ekkert spilað síðan hún tognaði aftan í læri í leik með Djurgården þann 4. júlí síðastliðinn. Hún var engu að síður valin í íslenska landsliðshópinn sem mætir Norður-Írlandi og Noregi síðar í mánuðinum.

Katrín er leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi og landsliðsfyrirliði. Tíðindi dagsins ættu því að vera jákvæð fyrir stelpurnar okkar.

Guðbjörg Gunnarsdóttir spilaði allan leikinn í marki Djurgården sem er í neðsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum frá öruggu sæti.

Piteå vann svo góðan sigur á AIK, 3-0, í dag. Hallbera Guðný Gísladóttir spilaði allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar hjá fyrrnefnda liðinu en það er í áttunda sæti deildarinnar af tólf liðum. AIK er í næstneðsta sæti, einu stigi fyrir ofan Djurgården.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×