Fótbolti

Liverpool fékk á sig þrjú mörk í seinni og tapaði á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Liverpool náði ekki að fylgja eftir góðum fyrri hálfleik og varð að sætta sig við 2-3 tap fyrir ítalska félaginu Udinese á heimavelli sínum í A-riðli Evrópudeildarinnar á Anfield í kvöld. Ítalarnir skoruðu öll þrjú mörkin sín í seinni hálfleik og Liverpool sat eftir með svekkjandi tap.

Udinese byrjaði leikinn vel og Liverpool gat þakkað markverði sínum Pepe Reina fyrir að Ítalirnir náðu ekki forystunni. Liverpool-liðið tók síðan völdin í leiknum.

Jonjo Shelvey kom Liverpool í 1-0 á 23. mínútu. Hann hóf sóknina með því að finna Stewart Downing á hægri kantinum og var síðan mættur inn í teiginn til þess að skalla fyrirgjöf Downing laglega í markið.

Liverpool hélt boltanum vel í fyrri hálfleiknum og var með hann í 72 prósent leiktímans en allt breyttist eftir aðeins nokkrar sekúndur í seinni hálfeik.

Varamaðurinn Andrea Lazzari fann þá Antonio Di Natale í teignum og reynsluboltinn afgreiddi boltann glæsilega í markið eftir aðeins 35 sekúndna leik í seinni hálfleik.

Udinese skoraði síðan tvö mörk með tveggja mínútna millibili. Fyrst skoraði Sebastian Coates sjálfsmark eftir aukaspyrnu á 70. mínútu og svo kom Giovanni Pasquale Udinese í 3-1 eftir stoðsendingu frá Antonio Di Natale á 72. mínútu.

Luis Suarez hafði komið inn á sem varamaður á 65 mínútu ásamt Steven Gerrard og hann minnkaði muninn í 2-3 með skoti beint úr aukspyrnu á 75. mínútu.

Liverpool sótti mikið í lokin en tókst ekki að bæta við marki og varð því að sætta sig við tap á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×