Innlent

Bara Íslendingar í nýjasta myndbandi David Guetta

BBI skrifar
Nýjasta myndband tónlistarmannsins og plötusnúðarins David Guetta var tekið upp á Íslandi. Allir leikarar í myndbandinu eru íslenskir en það var Pegasus sem sá um framleiðsluna.

Myndbandið við lagið She Wolf var frumsýnt 28. september síðastliðinn en síðan þá hafa rúmlega 14 milljónir manna horft á myndbandið á Youtube.

Í myndbandinu eltast nokkrir villimenn við úlf til þess að veiða hann. Að lokum tekst þeim að króa hann af en þá kemur á daginn að skepnan er kvenkyns varúlfur sem sprengir þá í tætlur.

Alfreð Gíslason, framleiðslustjóri hjá Pegasus, segir að framleiðendur myndbandsins hafi verið hrifnir af íslensku leikurunum og landinu. "Við höfum langflottasta leikaraliðið hér á landi fyrir útlitið sem þá vantaði. Það eru svo margir skeggjaðir hérna og í þessu villimannsútliti sem þeir voru að leita að," segir hann.

Það tók þrjá daga að skjóta myndbandið hér á landi en eftir það tók við flókin grafíkvinna, enda mikið af tæknibrellum í myndbandinu. Um 15 manna tökulið kom til landsins vegna myndbandsins en alls komu um 50 Íslendingar að gerð þess.

Leikstjóri myndbandsins er hinn bandaríski Hiro Murai en hann hefur meðal annars gert myndabönd fyrir sveitir á borð við Bloc Party, St. Vincent, Scissor Sisters og Azealia Banks.

Hér að ofan má sjá myndbandið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×